einhyrningar og mammútar frá tímum mammúta

 ... þar ... var að finna bein stórra spendýra s.s. mammúta, loðinna einhyrninga, vísunda, hrossa, dádýra og annarra dýrategunda frá tímum mammúta.

Þessi kostulega setning er þýdd úr BBC fréttinni, og er á frummálinu svona:

... containing bones of large mammals such as mammoth, woolly rhinoceros, bison, horse, deer, and other representatives of fauna from the age of mammoths...

"Mammútar frá tímum mammúta" er jafn vitlaust í báðum fréttum, en bara á íslensku hefur nashyrningurinn orðið að einhyrningi.


mbl.is Ræktuðu upp úr 30.000 ára ávexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðaleikir

Ég elska tungumál. Samt er ég ekki endilega mælskur – ég forðast orðafár, er frekar orðafár. Innihaldslaust þvaður gert til þess eins að veita hátalaranum unað eigin raddar er rispa á geisladisk lífs míns. En áferðarfagrar setningar og lipur tilsvör, merkingarþrungið margrætt muldur og snarpir orðaleikir eru mitt menningarlega manna.

Fyrr í dag tók ég kartöflusekk frá síðasta hausti úr geymslu til að fjarlægja af kartöflunum spírurnar. Pokarnir voru ofnir saman af spírum og kartöflurnar sömuleiðis. Úti í sólinni braut ég spírurnar af kartöflunum, einni af annarri, og fékk orðið andablanda á heilann. Var það hin fullkomna þýðing á gríska orðinu sem í ensku útleggst sem pandemonium? Pan- merkir al- eða víð-, eins og í panorama og pantheism, en demonium merkir djöfla. Það má segja að pandemonium brjótist út í brotlentri brennandi flugvél, eða á dansgólfi skemmtistaða á góðu laugardagskvöldi. En andablanda náði ekki að fanga meinsemdina í demonium, svo til að láta orðið ekki fara til spillis fór ég að föndra. Nokkrum tugum kartafla seinna hafði ég það. Setningin lýsir því sem margar þjóðir segja sína eigin sérstöku leið til að fást við vandamál, hin íslenska meðtalin. Til að setja sviðið getum við sagt að þjóðin eigi í trúarlegum vanda.

Standi landinn í andavanda blandar hann vínanda í landa handa vandamönnum, andar djúpt, grandar landanum og segir brandara.

Finnist einhverjum trúarlegur vandi ósennilegur að valda þess háttar viðbrögðum má segja að eitthvað hafi hlaupið á snærið hjá þjóðinni – þá verður andavandinn bandavandi.

Þetta er náskylt samtali sem ég átti við vinkonu nýlega, eftir að hafa gengið fram á vörðu – einvörðungu lítilsverða óvarða vörðu.

Benjamín: Valdi valdi vörðuvörð.
Ólöf: Valdi varð valdur að vali á vörðuverði.
Benjamín: Var varavörðuvörðurinn var um sig?
Ólöf: Varavöruvörðurinn varði sig vali Valda vandlega.
Benjamín: Valalið verði vörður Valda vel, væri varavörðuvörðurinn ekki værukær.
Ólöf: Ha?
Benjamín: Vera varavörðuvarðarins við vörðuna er virðingarverð, þó verri en ef varðan væri varin af Valda. Því vald Valda á vörðum er verulegt.

Þetta er ýkt form á ritstíl sem mér finnst mjög skemmtilegur, stuðlað og rímað mál. Einfalt dæmi er “frá Höfðaborg til Húsavíkur,” vægir orðaleikir sem gera skrif sagnfræðingsins Niall Ferguson skemmtileg.

Önnur tegund orðaleikja nýtir margræðni. Eftir langa veru í sólinni, búinn með kartöflupokann, varð mér það á að klóra mér vítt og breitt á sólbrunnu bakinu í algeru lostakasti. Ég lét mér það að kenningu verða þegar ég hné niður hálfgrátandi af kláðanum sem braust út að nokkrum sekúndum liðnum og hugsaði með mér

að klóra sér í sólbruna er svo gott og svo vont.

Skyndilega fattaði ég að

að klóra sér í sólbruna er svo gott-og-svo-vont.

Við mjög einfalda vinnu fæ ég svo stundum orð eða frasa á heilann sem eru ekki sérstaklega fyndnir en grafa um sig. Svolítið eins og líkormar. Óðinn óð inn, Óðinn óð inn, Óðinn óð inn… óð Óðinn inn? Inn óð Óðinn óður… Afrakstur eins dags þar sem ég strekkti girðingarvír var

Ég er mun-minni en mig minnti.

Mér fannst það svo sniðugt að ég setti það á Facebook, og fékk svarið “munnminni?”

Já, munnur minn er orðinn mynni :( Mun minna munn-mynni en manna minni muna.

Orð sem hefur sótt á mig lengi er svefndrukkinn, sem mér finnst frábært, enda lýsir það vel áhrifum þreytu – til dæmis svefngalsa. Orðið galsi er svo aftur anagramm (endurröðun stafa) af glasi, sem býður upp á

ég er í svefnglasi.

En anagrömm galsi eru ekki þar með talin.

galsi í glasi, lagsi! sliga alsig þig? er betra að sigla?

Orðabækur Sverris Stormsker voru mér mikil skemmtun þegar ég rakst á þær á bókasafni sem krakki. Tvíræðni margra orða í íslensku gerir þau auðveld til skoplegrar mistúlkunar, eins og að kalla kynferðisafbrot rúmmál og atvinnuleysi lögfræðinga kæruleysi, en nýyrði eins og riðrildi með augljósri merkingu eru líka áhugaverð. Mér þykir það miklu skemmtilegra orð en kynlíf, rétt eins og mér finnst stunda kynlíf ómælt vandræðalegra og hjákátlegra en ríða. Riðrildi er líka mikið fjörlegra en kynlíf, enda líkist það bæði rifrildi og fiðrildi, sem og auðvitað ríða.

Ég gæti haldið þessu áfram í allan dag, en læt frekara orðaleikjanurl bíða betri tíma. Tími til kominn að fara að vinna og leika sér með orð.


Glymur í tómum tunnum

Þessi færsla birtist fyrst þriðja október síðastliðinn annars staðar.

Þann 21. janúar 2009 samþykkti Samfylkingarfélag Reykjavíkur að flokkurinn skyldi slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og boða ætti til kosninga ekki seinna en í maí þess árs. Þingrof af þessu tagi eru frekar sjaldgæf af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru þau dýr – helsta röksemdin gegn hvers konar lýðræðislegum ákvörðunum er yfirleitt kostnaður. Hann er ekki eingöngu peningalegur. Hann felst líka í töpuðum vinnustundum þingmanna og almennings, sem þarf bæði að upplýsa sig og kjósa. Það er líka velþekkt að fátt gagnlegt gerist á þingi stuttu fyrir kosningar. Í öðru lagi boðar þingið sjálft til kosninga og kýs sjálft um vantrauststillögur, en fyrir hvort um sig þarf meirihluta þingmanna, og eðli málsins samkvæmt er ríkisstjórn samsteypa slíks meirihluta. Auðvitað eiga stjórnarliðar það til að falla frá stuðningi sínum við stjórnina, en það er enn og aftur sjaldgæft.

Í janúar 2009 höfðu mótmæli kennd við búsáhöld staðið lengi og lengi hafði verið kallað eftir kosningum. Fólk upp til hópa vildi láta sig hafa vesen til að skipta um ríkisstjórn. Að auki þótti þingið ekki vera að sinna störfum sínum að teljanlegu marki hvort eð er. Samfylkingin hafði fengið á sig þá mynd að hafa síður verið virkur þátttakandi í aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna (þótt rannsóknarskýrsla þess nafns hafi tiltekið einn samfylkingarmann í þeim þremur aðilum sem töldust helst bera ábyrgð). Þótt stuðningur við Samfylkinguna í skoðanakönnunum hafi verið lægri í upphafi árs 2009 en fylgi þeirra í undangengnum kosningum (um 22% gegn um 27%) þótti það ekki síst endurspegla óánægju með slagtog hennar og Sjálfstæðisflokksins.

Á þessum forsendum sleit Samfylkingin samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, boðaði til kosninga og bættist almennur stuðningur við hana jafnt og þétt fram að þeim. Þegar að þeim kom var fylgi hennar um 30% og styrktist hún í kosningunum sem nam 2 þingmönnum.

Síðan þá hefur gengið á ýmsu, og stemmingin hefur tekið að snúast gegn þingmönnum almennt, frekar en ákveðnum hópum þeirra. Af og til fá liðhlaupar frá flokkum klapp á bakið og jafnvel stjórnarliðar hafa sagt skilið við ríkisstjórnina. Þeir skilja eftir sig flokka sem hafa skaddað fylgi. Vinstri-græn hafa um 15% stuðning gegn um 22% fylgi í síðustu kosningum, og Samfylkingin 22% gegn 30%. Í kosningunum 2009 skiluðu 3,2% auðu atkvæði, en 14,1% hyggjast gera slíkt samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup frá 5. september 2011.

Í kvöld hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli – “Tunnutónar á brotin loforð”. Hávær köllin eru ekki um boðun kosninga. Sú von brást. Í staðinn er kallað eftir að þingmenn fari að beita sér í þágu fólksins. Spurningin er hve margar kosningar þarf áður en almenningur gefur þá von á bátinn líka.


Minna lýðræði, takk

Eftir öld misheppnaðra stjórnarskipunartilrauna stendur lýðræði uppi sem sigurvegari á Vesturlöndum. Enn er deilt um hve beint það á að vera, en yfirleitt er lýðræði sem slíkt ekki dregið í efa. En eins og það er útfært í dag innrætir það okkur yfirlæti og andfélagsleg viðhorf. Merki þess sjást í trú okkar á réttmæti þess að leggja öðrum lífsreglurnar, jafnvel þegar þær koma okkur ekkert við. Fuss og svei gegn fátækt, rusli og vímuefnaneyslu er yfirleitt beint að þinginu sem ætti að “gera eitthvað í þessu”, en leti hrópandans til að gera nokkuð sjálfur kemur sjaldan til tals. Ríkið verður þannig í ímyndun okkar töfrasproti sem bannar hluti sem okkur hugnast ekki og kaupir hluti sem okkur langar í, beitir valdi þar sem okkur langar ekki að beita því sjálf og sér um þurfandi sem okkur langar ekki að koma nálægt.

“Sem okkur langar” er orðafar sem fólk sættir sig misvel við í lýðræðislegu samhengi, og almennt betur ef viðkomandi er í hópnum sem náði sínu fram. Ráðamenn grípa þetta loðna orð á lofti og segja “okkur” þurfa kirkjur, virkjanir og tónlistarhús. Í beinu lýðræði um þessa hluti erum “við” sögð hafa ákveðið þá, þótt minnihlutinn sé enn jafn ósammála og fyrr. Þeir sem láta í lægri hlut mega malda í móinn sem þeir vilja, þótt þeir endi á að borga eins og hinir fyrir verkefnin. Við virkjanasmíð getur það líka gerst að miklu fleiri en íbúar við bakka árinnar ráða hvort áin verði virkjuð, og miklu fleiri en viljugir virkjendur borga fyrir virkjunina. Það að gróðanum sé í orði haldið í almannaeigu er svo notað sem réttlæting á kúgun árbakkabúa til að samþykkja virkjunina.

Með því að taka sífellt sameiginlegar ákvarðanir um málefni sem varða aðeins fáa þátttakendur er okkur innrætt skeytingarleysi gagnvart sjálfsákvörðunarrétti annarra. Sumum þykir þannig eðlilegt að taka sameiginlegar ákvarðanir um hvort samkynhneigðir megi giftast – eða jafnvel hvort þeir megi vera samkynhneigðir yfirhöfuð! Þar skortir alveg þá tilfinningu að þetta kemur okkur ekkert við. Sama hverjum við hrífumst af kemur hrifning annarra okkur ekki við, og raunar ekkert sem þau gera, ef það er ekki á okkar kostnað. Þetta vandamál óþarfra og ofvirkra kosninga og ákvarðanatöku hyrfi ef við værum heiðarleg og létum ekki eins og allt sem fræðilega mætti kjósa um skipti okkur máli.

Ég átti nýlega í samræðum um stjórnarfar, sem strönduðu á kjarnyrtri yfirlýsingu viðmælandans: “ég vil halda í réttinn til að troða skoðun minni á aðra”. Það er augljóst að slíkur réttur hefur enga merkingu í jafnaðarsamfélagi, þar sem enginn er í stöðu til að gera sína skoðun að lögum. En þessi afstaða sprettur fullkomlega eðlilega af lýðræðishugsjóninni, þeirri hugmynd að ef við erum nógu mörg gegn nógu fáum megum við alveg troða okkar skoðun á þá. Þegar ríkið er milliliður þurfum við ekki einu sinni að horfast í augu við þá sem ákvörðunin kemur illa við, svo sem fólk sem þarf að víkja af landi sínu fyrir almannaframkvæmdum. Ef þau mæta okkur getum við alltaf yppt öxlum og bent á Hina Lýðræðislegu Ákvörðun sem hinn raunverulega sökudólg.

Því er ekki að neita að lýðræði er gott tæki fyrir hóp, sem vill koma einhverju í verk, til að ákveða hvernig á að fara að því. Við, sem viljum smíða tónlistarhús, getum sagt hve mikið hvert okkar er reiðubúið að láta af hendi rakna til þess, og tekið svo ákvörðun um stærð þess og gluggafjölda að gefnum þeim skilyrðum. Við getum tekið gagnkvæma ákvörðun að stunda aldrei samkynhneigt kynlíf, og ákveðið lýðræðislega viðurlögin. En að taka ákvarðanir fyrir annarra hönd, að kjósa um málefni, sem ekki snúa að sjálfsvörn, sem sumir vilja einfaldlega ekki lúta meirihlutaákvörðun í, er yfirgangur. Kannski langar “okkur” til að halda í almennt og haftalítið lýðræði, en á meðan við þurfum ekki að horfast í augu við beinar og óbeinar afleiðingar ákvarðana okkar er of auðvelt að gleyma hvaða vald felst í því, vald sem hefur ef til vill ekki rétt á sér, og hvers beiting er tignarlaus og andfélagsleg.


Annars hvað?

Eflaust litast þessi skoðun af hagsmunum Kínverja. En það sem ekki er tekið fram er, hvaða hörmungar fylgja því að evrusvæðið haldi áfram að óbreyttu?

 

Þetta er sama einsýni og þegar fjallað er um bankahrun, þegar sagt er að bjarga verði bönkunum því annars fer allt í klessu. Afleiðingar þess að skuldir þeirra séu færðar á ríkið, og þar með almenna borgara, felast ekki aðeins í skaðanum sem ríkissjóður verður fyrir, heldur einnig því vel þekkta vandamáli að bankarnir geta gengið að slíkum björgunum vísum. Það er ekki líklegt til að efla skynsama og framsýna ákvarðanatöku þeirra.

 

Stundum eru báðir kostirnir hörmulegir.


mbl.is Hrun evrusvæðisins yrði hörmulegt fyrir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp, upp og áfram

Ég er aðeins duglegri að skrifa á manntal.wordpress.com.

fátt ef ekkert

Það er skrítið að segja að það var "fátt ef ekkert sem gladdi fjárfesta". Ef ekkert gladdi fjárfesta, þá hefur það ekki verið fátt sem gladdi þá. Meiningin hefur eflaust verið "fátt ef nokkuð". Með þannig orðalagi verður fréttin skiljanleg, þótt hagkerfið sem hún fjallar um sé það ekki.
mbl.is Söluæði rann á fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítin hagfræði

Hærri vextir á skuldabréfum eru greiddir þegar lítil eftirsókn er eftir þeim, ekki mikil. Það má líta á þá sem áhættuborgun. Líklega hefur blaðamaður eitthvað mislesið greinina sem hann gleymir að vísa í.

Það má kannski taka fram að þessar spár hagfræðingsins eru ekki endilega áreiðanlegri en völuspár glanstímarita, þótt réttlætingar hans hljómi meira sannfærandi. Þá sem langar að lesa þær í heild sinni geta litið við hjá Telegraph:

Grein Evans-Pritchard


mbl.is Kínabólan að springa
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Fjandans rugl

Ef við eigum að fara að hlýða lögum "af því bara", óháð því hvort þau séu sanngjörn, þá er það heldur lélegt samfélag. Ef hún kann að taka myndir, og fólk vill kaupa þær, á þá að banna henni það? Þetta er hlægilega heimskulegt.
mbl.is Spurning um að iðnlöggjöfin haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna "veðurfræðilegra aðstæðna"‽

"Afsakaðu elskan, ég var seinn heim vegna umferðarfræðilegra aðstæðna." Heimasíða Veðurstofunnar segir mér að það hafi verið hvasst í Eyjum í kvöld, sem gæti verið hluti umræddra aðstæðna. Yfir þrjátíu metrar á sekúndu, svo líklega hefur ekki verið hægt að fljúga vegna veðurs - nánar tiltekið vinda. En vegna ritstjórnarfræðilegra aðstæðna hefur þótt málfarsfræðilega heppilegra að setja þetta hlægilega málskrípi á öldur ljósvakans í staðinn. Það er vonandi að þetta verði hlegið í glötun, því ef þetta verður vinsælt orðatiltæki gæti ég þurft að loka mig í helli. Vegna málfarsumhverfisfræðilegra aðstæðna.
mbl.is Barnshafandi kona sótt til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband