Glymur í tómum tunnum

Þessi færsla birtist fyrst þriðja október síðastliðinn annars staðar.

Þann 21. janúar 2009 samþykkti Samfylkingarfélag Reykjavíkur að flokkurinn skyldi slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og boða ætti til kosninga ekki seinna en í maí þess árs. Þingrof af þessu tagi eru frekar sjaldgæf af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru þau dýr – helsta röksemdin gegn hvers konar lýðræðislegum ákvörðunum er yfirleitt kostnaður. Hann er ekki eingöngu peningalegur. Hann felst líka í töpuðum vinnustundum þingmanna og almennings, sem þarf bæði að upplýsa sig og kjósa. Það er líka velþekkt að fátt gagnlegt gerist á þingi stuttu fyrir kosningar. Í öðru lagi boðar þingið sjálft til kosninga og kýs sjálft um vantrauststillögur, en fyrir hvort um sig þarf meirihluta þingmanna, og eðli málsins samkvæmt er ríkisstjórn samsteypa slíks meirihluta. Auðvitað eiga stjórnarliðar það til að falla frá stuðningi sínum við stjórnina, en það er enn og aftur sjaldgæft.

Í janúar 2009 höfðu mótmæli kennd við búsáhöld staðið lengi og lengi hafði verið kallað eftir kosningum. Fólk upp til hópa vildi láta sig hafa vesen til að skipta um ríkisstjórn. Að auki þótti þingið ekki vera að sinna störfum sínum að teljanlegu marki hvort eð er. Samfylkingin hafði fengið á sig þá mynd að hafa síður verið virkur þátttakandi í aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna (þótt rannsóknarskýrsla þess nafns hafi tiltekið einn samfylkingarmann í þeim þremur aðilum sem töldust helst bera ábyrgð). Þótt stuðningur við Samfylkinguna í skoðanakönnunum hafi verið lægri í upphafi árs 2009 en fylgi þeirra í undangengnum kosningum (um 22% gegn um 27%) þótti það ekki síst endurspegla óánægju með slagtog hennar og Sjálfstæðisflokksins.

Á þessum forsendum sleit Samfylkingin samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, boðaði til kosninga og bættist almennur stuðningur við hana jafnt og þétt fram að þeim. Þegar að þeim kom var fylgi hennar um 30% og styrktist hún í kosningunum sem nam 2 þingmönnum.

Síðan þá hefur gengið á ýmsu, og stemmingin hefur tekið að snúast gegn þingmönnum almennt, frekar en ákveðnum hópum þeirra. Af og til fá liðhlaupar frá flokkum klapp á bakið og jafnvel stjórnarliðar hafa sagt skilið við ríkisstjórnina. Þeir skilja eftir sig flokka sem hafa skaddað fylgi. Vinstri-græn hafa um 15% stuðning gegn um 22% fylgi í síðustu kosningum, og Samfylkingin 22% gegn 30%. Í kosningunum 2009 skiluðu 3,2% auðu atkvæði, en 14,1% hyggjast gera slíkt samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup frá 5. september 2011.

Í kvöld hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli – “Tunnutónar á brotin loforð”. Hávær köllin eru ekki um boðun kosninga. Sú von brást. Í staðinn er kallað eftir að þingmenn fari að beita sér í þágu fólksins. Spurningin er hve margar kosningar þarf áður en almenningur gefur þá von á bátinn líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband