Kverkatak Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur farið mikinn upp á síðkastið. Íðilfundir með meirihlutum sveitastjórna, leynilegar samningagerðir við ríkisstjórn og kynningarferðir með nefndum af Alþingi. Það kemur ekki á óvart, enda ætla forsvarsmenn Landsvirkjunar að hefja smíði þriggja virkjana í Neðri-Þjórsá innan fimm mánaða. Í slíkum asa ber við að atriði eins og stjórnarskrá lýðveldisins gleymist.

Samningaumleitanir við landeigendur hafa mikið til gengið illa. Þeim landeigendum sem sérstaklega harðir eru í horn að taka hefur verið ógnað með því að Landsvirkjun muni, ef þeir hætti ekki andstöðu sinni, fá "bráðabirgðaframkvæmdaleyfi" (sem er ekki til) og hefja framkvæmdir á landi sem hvorki hefur verið samið um né tekið eignarnámi.
Og Landsvirkjun hefur ás í erminni. Þegar minnst er á eignarnám segja talsmenn hennar að það muni í raun ekki eiga sér stað, enda séu landeigendurnir ekki með vatnsréttindi lands síns. Leyndarmálið er að Landsvirkjun hefur þau.
En bíðum nú við, fékk ríkið þau ekki fyrir hálfri öld síðan?

Tveimur dögum fyrir Alþingiskosningarnar 2007 samþykktu fyrir hönd íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar Árni M. Mathisen, Guðni Ágústsson og Jón Sigurðsson, og fyrir hönd Landsvirkjunar Friðrik Sophusson, fjarri kastljósi fjölmiðla eða Alþingis, að Landsvirkjun skyldi fá vatnsréttindin af bökum Þjórsár að láni í 10 ár.
En hví liggur Landsvirkjun þá svo mikið á að ljúka þessu af?

Stóriðjustjórn Sjálfstæðisflokksins stendur höllum fæti og endurtekin misferli og ólukkulegar starfsaðferðir við Kárahnjúka hafa valdið því að stuðningur við áframhaldandi brölt Landsvirkjunar fer þverrandi, hvað þá við þrjár virkjanir á byggðu jarðskjálftasvæði. Tveir þriðju svarenda nýlegrar könnunar visir.is lýstu sig mótfallna virkjanaáformunum. Þar að auki er enginn ákveðinn kaupandi að orkunni, atvinnuleysi á Íslandi er innan við 1% og raforkuþörf almennings hefur verið sinnt 2-4falt. Og eins og það væri ekki nóg hefur meira framboð raforku ekki skilað sér í lægra raforkuverði, þvert á móti.

Svo ég spyr, hvaða ástæðu hefur þriðjungur þjóðarinnar fyrir virkjun?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband