Færsluflokkur: Bloggar

Voru þau örugglega tæmd?

Mér skilst að verst settu verkamennirnir á Kárahnjúkum vinni 12-13 tíma í göngunum á dag samfleytt, hægi sér þar og borði þar einnig matinn sinn, í hnédjúpu vatni. Ætli einhverjir hafi óvart gleymst í göngunum áður en vél 2 var ræst?
mbl.is Grunnvatni hleypt á vél 2 í Kárahnjúkavirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétti maðurinn?

Er George W. Bush rétti maðurinn til að segja til um kosningafyrirkomulag? Maðurinn sem stoppaði endurtalningu á atkvæðum eftir einkar tortryggilegar niðurstöður honum í hag. Það borgar sig að eiga pabba sem er fyrrverandi forseti.
mbl.is Bush hvetur til sanngjarnra kosninga í Pakistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Letihaugar?

"Samtökin neita aðild að því að hafa slett málningu á Athygli, sé það rétt er þessum orðum einnig beint til allra þeirra sem styðja og/eða framkvæma lögbrot og þykir það réttlætanlegt vegna náttúruspjalla á hálendinu."


Þetta eru nú meiri bullukollarnir.  Ég get ekki sagst vera SI sammála að öllu leiti, en ég held að Íslendingar gætu vel látið meira fyrir sér fara í mótmælum gegn virkjunum í Þjórsá og gegndarlausri stóriðjustefnu og kosingaloforðabrotum, svo útlendingar sjái sig ekki knúna til að sjá um þau fyrir okkur.


mbl.is Áskorun til Saving Iceland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í stuði með Sveini

Ég vona að þeir taki fulla sjúkrasögu afbrotamannsins áður en þeir skjóta hann. Þetta fer illa með hjartaveikt fólk og verr með gangráða. Miðað við misjafnar sögur af íslensku lögreglunni upp á síðkastið, til dæmis þegar hún handtók groddalega ungmenni með tyggjóklessu í aftursætinu, finnst mér næstum eins og íslenskir lögregluþjónar séu ekki færir til að handleika þessi vopn. Það er mikil hætta á að þetta verði svo handhægt og einfalt vopn að lögreglan fer að nota þetta við síður alvarleg tækifæri en þessi búnaður er gerður fyrir. Mér uggar við að viðmót lögreglunnar við tæki sem "fylgir töluverður sársauki" sé að það "á þó að vera að mestu hættulaust". Líka að "Sveinn Ingiberg Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segist fagna því ef samþykki fáist fyrir notkun byssanna".
mbl.is Rafbyssur til reynslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri vitleysan

Ef fólk vantar pláss í fangelsum er alger óþarfi að nota forsetann til að rýma til. Svo eru fangelsi léleg lausn á afbrotavanda. Það er ekki eins og fólk batni þar. Sé afbrotamaður tekinn úr samfélaginu og settur í fangelsi á það eingöngu að vera til að hlýfa samfélaginu við honum, eins og tilfellið er þegar um miskunnarlausan fjöldamorðingja er að ræða. Þar sem ég tel ólíklegt að 60.000 Frakkar séu miskunnarlausir fjöldamorðingjar tel ég heppilegri lausn að senda alla þessa smákrimma bara á sjóinn, að moka flórinn eða í nautgripabú; senda þá í andlega afvötnun/afeitrun.

Það leysir engan vanda að nota forsetann sem afsökun til að sleppa þúsundum dæmdra afbrotamanna í samfélagið á ný.


mbl.is Sarkozy neitar að náða fanga á Bastilludaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lost sparkar inn

Lost tölurnar, sem Hurley notaði til að vinna lottóið:
4-8-15-16-23-42
Lottótölur kvöldsins:
4-6-15-26-28-3
mbl.is Einn með allar tölur réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsaðu áður en þú kýst

BRÁTT verður kosið um stækkun álvers í Hafnarfirði. Hér ætla ég að fá lesendur til að hugsa um nokkur atriði áður en gengið verður til kosninga.

Við upphaf kosningabaráttu Alcan var mengunaraukningu haldið frá umræðunni um álverið. Sumir héldu því jafnvel fram að mengun ykist ekki neitt. Annað kom á daginn.

Samkvæmt Hagstofu Íslands nam koltvísýringsútblástur vegasamgangna á Íslandi árið 2004 636.000 tonnum. Eftir stækkun mun losun álversins, skv. minnisblaði Alcan, nema 727.720 tonnum á ári. Útblástur álvers í Hafnarfirði verður meiri en útblástur allra vegasamgangna Íslendinga. Þá er ótalin aukin svifryksmengun, flúoríðsmengun, brennisteinsmengun og svo sjónmengun, auk háspennulína sem leggja þarf um eða yfir bæinn.

Það var einnig látið í veðri vaka að Alcan myndi leggja niður álbræðsluna í Straumsvík yrði ekki kosið Alcan í vil. Þetta stangaðist á við fyrri orð forsvarsmanna Alcan, og fæstir vilja í dag kannast við að hafa haldið þessu fram. Álverið er í stórum plús og fær raforku á hlægilega lágu verði. Alcan hefur enga áætlun um undanhald í Straumsvík. Sumir vilja helst að fyrirtækið fari samt, aðrir vilja frekar halda því í Hafnarfirði. Sums staðar er þó afstaðan eindregnari.

Súrálið sem brætt er í Straumsvík er unnið úr báxíti. Báxítið er numið í grunnum og stórum námum í, svo dæmi sé tekið, Jamaica. Þegar báxíti er breytt í súrál verður til "rauð drulla", bráðskaðleg efnablanda. Fyrir hvert tonn af súráli verða til 3–4 tonn af þessari rauðu drullu. Þessi drulla er ekkert verðmæti í augum Alcan (né nokkurs manns) og er því veitt í fljót og vötn og hefur valdið miklum skaða á grunnvatni innfæddra, sem og lungnasjúkdómum, blindu, mígreni, hjartasjúkdómum og krabbameini. Dæmi eru um fólk sem hefur þurrt og gatað skinn, misst tennur og fengið hárlos. Fjármagn skortir til lyfja og lækninga. Að sjálfsögðu er þetta langt í burtu, en eitt er vert umhugsunar. Þótt við getum flest glaðst yfir því að vera ekki blind, með krabbamein eða hjartasjúkdóma, er vert að hugleiða hvað slíkt fyrirtæki er reiðubúið að gera fyrir hagsmuni okkar og hvað við erum reiðubúin að gera fyrir þetta fyrirtæki.

Lifið heil.

Höfundur er búsettur við bakka Þjórsár.


Bljóð

Ég vaknaði um ellefu, var heldur hress
enda fór ég snemma að sofa í gær.
Ég efa samt að aðeins var það vegna þess
því sólin skein í augu mín svo skær.

Ég stóð á fætur, en hvað veðrið var þá fínt
veisla fyrir augað fannst mér sólin.
Fuglasöngur, ilmur grassins gat mér sýnt
að góður yrði dagurinn og... jólin.

Matreiðslan var aldrei, hóst, mín sterka hlið
held ég hafi ekkert lært í vali.
Pabbi pönnusteikti og ég veitti lið
með pælingum og endalausu mali.

Eftir matinn tók ég fyrir tölvu mína
tengdi hana netinu og fleiru.
Með spjalli þar að lokum tókst að sýna
að spekingur ég sé og nörd með meiru.

Að því loknu út ég hélt að fæða kindur
ekki geta heldur fæða, gefa mat
því að ég hef ekki kvenmannssköp og vindur
en hef þó getað getið til um gat sem gat.

Baggalútsins köntrísveitar naut þar næst
nam þar tónlist sem mér finnst hin besta.
Lögin streymdu út viðtækið og veittu glæst
vitum mínum skemmtun allra mesta.

Húmið færðist yfir, þá ég brosti breitt
Benedikt var kominn upp í mér.
Skáldið í mér vaknaði og gerði greitt
gifta minna borð sem rykugt er.

Held á bleika floydið þú nú hlýða megir
heyr, nú skín á brjálaðan demant.
En erum við, rétt eins og Roger segir
rýrir hlutar veggs sem er steina vant.

Ég held satt að segja að mig megi túlka
sem mann með geðhvörf slæm á fyrsta stigi.
Komist ég á Klepp ég vona að snotur stúlka
sem mér fylgi þar sé ekki lygi.

Póstið kommentum á þetta rugl hér, plís
og pikkið upp addressuna og shjérið.
Beggið um að visita í tugavís
og gefið mér trilljón krónur í fimmþúsund króna seðlum, helst nýjum.

 

Benjamín 


Afsakið þetta...

Biðst forláts á endalausum flutningum, þetta er bara svo miklu betra!

Benjamín 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband